24.11.2010 | 11:12
70% Reykvíkinga aka sjálfir í vinnuna skv. könnun
Í frétt af könnun á ferðavenjum fólks í Reykjavík og nágrenni segir að færri aki sjálfir til vinnu eða skóla nú en í fyrra. Einnig segir að reiðhjól séu á uppleið og að fleiri noti strætó en í fyrra.
Í skýrslu um könnunina eru sýndar fjöldatölur. Þeir sem áhuga hafa geta þá reiknað hvort breytingin sé nægiloeg til þess að það megi álykta að ferðavenjur Reykvíkinga hafi breyst, eða hvort hún geti bara stafað af hreinni tilviljun, eins og því hverja náðist í þegar spurt var. Þetta er reyndar ekki reiknað í skýrslunni.
Núna sögðust 64,8% svarenda aka sjálfir til vinnu, en hlutfallið í fyrra var 67,47%. Svör Reykvíkinga í könnuninni voru milli 500 og 600 hvort ár. Þetta er það lítil könnun, að hlutfallið í ár hefði þurft að fara niður fyrir 62% til þess að lækkunin yrði marktæk. Í ár sögðust 359 aka sjálfir til vinnu. Þeir hefðu ekki mátt vera fleiri en 343 til þess að fullyrðingin í fréttinni stæðist.
Í ár voru heldur fleiri svarendur hvorki í vinnu né skóla en var í fyrra. Nú voru þeir 35 en 27 í fyrra, auk þess sem heldur fleiri svöruðu þá könnuninni. Þegar reiknað er hlutfall þeirra sem nota tiltekinn ferðamáta væri eðlilegt að hlutfalla bara af þeim fara til vinnu eða skóla, sleppa þeim sem hafa ekkert að fara. Þá aka 69,2% sjálfir til vinnu, í fyrra voru það 70,8%. Breytingin er enn minna marktæk en þegar heildarhlutfallið er notað, fjöldinn nú hefði þurft að fara niður í 338 til þess að breyting væri marktæk.
Þeir sem hjóla venjulega voru 25 núna en 19 í fyrra. Munurinn hér er heldur ekki marktækur. Hefði svo verið, þá hefði verið gott að vita hvort veðrið væri á uppleið milli ára, það getur haft áhrif á hversu margir hjóla.
Rétt væri fréttin því svona: Í könnun á ferðavenjum Reykvíkinga kom fram að um 70% þeirra aka sjálfir þegar þeir fara til vinnu, rétt eins og í fyrra. Þeim sem taka strætó hefur fjöldað úr 5,6 %í 9,6% af þeim sem fara til vinnu. Ekki er marktæk breyting á notkun á öðrum ferðamáta, ellefu prósent ganga, um 5% fara hjólandi og álíka margir í bíl með öðrum.
Fréttin er á http://www.reykjavik.is/DesktopDefault.aspx/tabid-259/1198_read-24175/. Endursögn á frétt borgarinnar: Fréttablaðið 24. nóv. 2010, bls. 2. Skýrsla um könnunina er á http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/umhverfissvid/myndir/skyrlsur/4020455_reykjavikurborg_191110.pdf
Um bloggið
Helgi Þórsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.