Færsluflokkur: Bloggar

70% Reykvíkinga aka sjálfir í vinnuna skv. könnun

Í frétt af könnun á ferðavenjum fólks í Reykjavík og nágrenni segir að færri aki sjálfir til vinnu eða skóla nú en í fyrra. Einnig segir að reiðhjól séu á uppleið og að fleiri noti strætó en í fyrra.

Í skýrslu um könnunina eru sýndar fjöldatölur. Þeir sem áhuga hafa geta þá reiknað hvort breytingin sé nægiloeg til þess að það megi álykta að ferðavenjur Reykvíkinga hafi breyst, eða hvort hún geti bara stafað af hreinni tilviljun, eins og því hverja náðist í þegar spurt var. Þetta er reyndar ekki reiknað í skýrslunni.

Núna sögðust 64,8% svarenda aka sjálfir til vinnu, en hlutfallið í fyrra var 67,47%. Svör Reykvíkinga í könnuninni voru milli 500 og 600 hvort ár. Þetta er það lítil könnun, að hlutfallið í ár hefði þurft að fara niður fyrir 62% til þess að lækkunin yrði marktæk. Í ár sögðust 359 aka sjálfir til vinnu. Þeir hefðu ekki mátt vera fleiri en 343 til þess að fullyrðingin í fréttinni stæðist.

Í ár voru heldur fleiri svarendur hvorki í vinnu né skóla en var í fyrra. Nú voru þeir 35 en 27 í fyrra, auk þess sem heldur fleiri svöruðu þá könnuninni. Þegar reiknað er hlutfall þeirra sem nota tiltekinn ferðamáta væri eðlilegt að hlutfalla bara af þeim fara til vinnu eða skóla, sleppa þeim sem hafa ekkert að fara. Þá aka 69,2% sjálfir til vinnu, í fyrra voru það 70,8%. Breytingin er enn minna marktæk en þegar heildarhlutfallið er notað, fjöldinn nú hefði þurft að fara niður í 338 til þess að breyting væri marktæk.

Þeir sem hjóla venjulega voru 25 núna en 19 í fyrra. Munurinn hér er heldur ekki marktækur. Hefði svo verið, þá hefði verið gott að vita hvort veðrið væri á uppleið milli ára, það getur haft áhrif á hversu margir hjóla.

Rétt væri fréttin því svona: Í könnun á ferðavenjum Reykvíkinga kom fram að um 70% þeirra aka sjálfir þegar þeir fara til vinnu, rétt eins og í fyrra. Þeim sem taka strætó hefur fjöldað úr 5,6 %í 9,6% af þeim sem fara til vinnu. Ekki er marktæk breyting á notkun á öðrum ferðamáta, ellefu prósent ganga, um 5% fara hjólandi og álíka margir í bíl með öðrum.

Fréttin er á http://www.reykjavik.is/DesktopDefault.aspx/tabid-259/1198_read-24175/. Endursögn á frétt borgarinnar: Fréttablaðið 24. nóv. 2010, bls. 2. Skýrsla um könnunina er á http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/umhverfissvid/myndir/skyrlsur/4020455_reykjavikurborg_191110.pdf




Er Obama forveri sjálfs sín?

Fyrirsögnin er tær snilld. Í fréttinni kemur fram að Obama mælist óvinsælli en forverar hans.
mbl.is Obama óvinsælli en forverarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir bílar menga

Flest fólk vill sennilega nýta takmarkaðar auðlindir skynsamlega og sýna umhverfinu nærgætni almennt. Til þess eru ýmsar leiðir, það sem að bílnum snýr er frekar einfalt, það þarf að nota þá minna. Áhrifaríkasta leiðin fyrir stjórnvöld til þess að takmarka notkun bíla er að gera notkun þeirra það dýra að venjulegt fólk hugsi sig vandlega um áður en það notar þá. Heilmiklir skattar eru á bílum og bílanotkun, en allir bílar menga. Hvatningin til minni notkunar felst þá í að hækka eldsneytisgjöld. Jafnframt mætti hækka innflutningsgjöld, þótt ekki bráðliggi á því. Þar kemur kreppan til hjálpar, enginn bílainnflutningur er fyrirsjáanlegur. Ríkisstjórnin metur svo hvort hvort þetta sé pólitískt óhætt fyrir hana.

Það gefur auga leið að þungir bílar og eyðslufrekir menga meira en léttir bílar og sparneytnir. Þeir eru dýrari í rekstri og venjulega dýrari í innkaupi. Stundum nota menn stóra bíla þar sem hægt væri að nota léttari og sparneytnari bíl. Það er væntanlega sú notkun sem ríkisstjórnin var að ræða. Góðærisleg lausn væri að lækka gjöld á sparneytnum bílum, þannig að fólk gæti átt bíl fyrir hverja notkun, lítinn skreppubíl, rúmgóðan ferðabíl, bíl til að flytja margt fólk, bíl til að flytja garðaúrgang í flokkunarstöð o.s.frv. Sú lausn er frekar dýr, a.m.k. í stofnkostnaði. Stundum þarf að nota stóra bíla, t.d. ef flytja á margt fólk eða mikinn varning. Strætó fellur í þann flokk. Strætó mengar líka, en styrkur hans liggur í því að hann getur flutt marga, þegar svo heppilega vill til að þeir séu nokkurn veginn á sömu leið. Erfiðleikarnir við að ná hagstæðum umhverfisáhrifum með góðum almenningssamgöngum eru hvað Reykjavík er strjálbyggð. Fáir eru á á ferðinni á flestum leiðum og ekki svarar kostnaði að láta strætó ganga að staðaldri. Fyrir vikið verða margar leiðir alltaf þannig að sæmilega hraust fólk er fljótara að ganga en fara með strætó.

Eftir umhverfisráðherra er haft: “Ísland má ekki verða amerísk bílaborg”. Ráðherrann þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu, Ísland er ekki borg og alls ekki amerísk borg. Reyndar er Reykjavík talsverð bílaborg, ef átt er við að hún sé svo strjált byggð að einkabílar séu besti kosturinn til þess að komast um. Besta leiðin til að laga það hefði verið að byggja meira fyrir aldamótin 1900, en það var ekki gert.

Ráðherrann segir líka: “Ísland er ekki svo miklu norðar en Danmörk að hjólreiðar ættu að geta orðið hluti af venjubundnum samgöngum hér á landi”. Þetta er ekki góð landafræði. Ísland er um 8 breiddargráðum norðar en Danmörk. Hver breiddargráða er 60 sjómílur. Það munar heilmikið um 4-500 sjómílur í norðlægri breidd. Veðrið er lakara, epli, eikartré og hveiti þrífast verr á Íslandi en í Danmörku, færri synda í sjónum. Verst er að það er ekki meðvindur í báðar áttir á hjólastígunum eins og frambjóðandi til bæjarstjórnar í Ârósum lofaði og var kosinn.

Það er góðra gjalda vert að hafa áhyggjur af útblæstri, en það er erfitt að stýra fólki yfir í samgöngumöguleika sem varla eru raunhæfir. Árangursríkara er að hvetja fólk til að keyra ekki nema þess þurfi og haga akstrinum þannig að eldsneyti sé ekki sóað.


mbl.is Vill skatta á mengandi bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið ráðið hvort þið trúið mér, hann ætlar ekki að borga!

Kannski var hann ekki að tala um Íslendinga þegar hann sagði hin fleygu orð ([Eftir minni]: "Believe it or not, they are not going to pay"), heldur bara um skattinn sinn og heimilsreksturinn.

Vísir.is segir að hann hafi líka látið ríkið borga framtalsvinnuna. Sem er skemmtilegt, af því að sem fjármálaráðherra er hann yfirmaður skattsins og því eiginlega að skrifa sjálfum sér þegar hann telur fram. Ég hefði ekki hugmyndaflug til þess að vera með menn í vinnu á kostnað hins opinbera við að tala við sjálfan mig.

 


mbl.is Darling í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrökvað upp á konu mína (slitra, sbr. vísnaþátt Mogga í dag)

Í dag var fjallað um slitruhátt í vísnaþætti Moggans. Þá var þessari skörkvað upp á Guðrúnu konu mína:

Ég er dáldið -fúin fót,

sein til verka -lega fer

hækkunum að -mæla mót

áfengis í -slunum ver.


ESB, Morgunblaðið, Kolbrún og klíkur

Benedikt Jóhannesson birti pistil á síðu EvrópunefndarSjálfstæðisflokksins sl. föstudag (9. jan.) http://evropunefnd.is/almennt/article/2009/01/09/leidin-til-anaudar-eda-brussel/ til þess að hvetja Sjálfstæðismenn til þess að horfa opnum augum á ESB aðild. Hann fer yfir nokkrar aðferðir við ómálefnalega umræðu og byrjar pistilinn:


Í rökræðum er vinsælt að spyrða andstæðinga saman við einhverja sem flestir hafa lítinn þokka á. Ef eitthvert illmenni eða auli er í liði andstæðinganna eru þeir örugglega allir illmenni eða aular. Gildir þá einu hvort viðkomandi er [í] því liði eða ekki. Það er nóg að segja að hann sé það og láta menn svo kveljast við að sverja hann af sér”.


Grein Kolbrúnar Berþórsdóttur á sjálfri miðopnu Morgunblaðsins í dag (sunnd. 11. jan., http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1263874) er eins og samin sem dæmi um þetta. Hún spyrðir okkur, efasemdarmenn um ágæti ESB aðildar, reyndar við hugtök frekar en fræg illmenni. Hér eru nokkrar slíkar tilvitnanir í greinina:


  • Litla klíkan og Evrópusambandið

  • Öfl í Sjálfstæðisflokknum hamast nú sem mest þau mega

  • bragð í áætlun Evrópusambandsandstæðinga Sjálfstæðisflokksins

  • gólar ákveðinn harðlínuhópur innan Sjálfstæðisflokksins píslarvættislega

  • á sérstakri netsíðu sem harðlínumennirnir og Evrópusambandsandstæðingarnir innan flokksins halda úti

  • að afneita staðreyndum

  • bara sjá það sem þeim er þóknanlegt

  • litla harðlínuklíkan innan Sjálfstæðisflokksins

[ég hirði ekki um að klippa og líma úr lokamálsgreinni]


Skoðanabræður Kolbrúnar eru (með hennar orðum í greininni):

  • áhrifamenn í atvinnulífinu, hagfræðingar og fjölmargir aðrir mætir og framsýnir einstaklingar


Kolbrún má hafa þá skoðun sem henni sýnist (þótt ég kysi vitaskuld að hún væri sammála mér). Hún má líka setja sína skoðun fram eins og henni sýnist þegar ræðst er við á jafnræðisgrunni. En Morgunblaðið setur ofan með því að birta svona "málflutning". Blaðið veldur okkur vonbrigðum, sem enn borgum fyrir það þótt það hafi fengist gefins.


Grein Kolbrúnar er öðrum þræði skrifuð eins og ekki sé verið að ræða í Sjálfstæðisflokknum um tengsl Íslendinga við ESB. Þær umræður eru á fullu og verða útkljáðar á landfundi eftir þrjár vikur.



Morgunblað hinna furðulega fyrirsagna

Á blaðsíðu 19 í dag (laugardag 10. jan.) er undirfyrirsögn á viðtali við Kristin Einarsson: “Vatnsauður landsins er ófullkannaður”. Þetta skilja allir velviljaðir lesendur, en orðið “ófullkannaður” er ekki góð íslenska, sennilega vegna samsetningarinnar: Ó-fullkannaður eða ófull-kannaður? Orðið “ófullkannaður” kemur ekki fyrir í viðtalinu sjálfu.

 

Á baksíðu föstudagsblaðsins er aðalfyrirsögn: “Hjól ekki leiktæki og undirfyrirsögn: “Slæmt hve margir líta á hjól sem leiktæki en ekki raunhæfan ferðamáta, segir formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur ”. Aðalfyrirsögnin er í besta falli villandi og er ekki beint úr viðtalinu. Þorri Íslendinga hefur átt fá betri leiktæki en reiðhjól. Formaðurinn er að boða það að reiðhjól séu fleira, nefnilega alveg raunhæfur ferðamáti sem þurfi sinn sess í samgöngukerfi borgarinnar, svo ég túlki viðtalið.

 

Sl. mánudag (5. jan.) var fyrirsögn framan á fasteignakálfi Morgunblaðsins: “Húðun í stað brota og bramls ”. Í fréttinni var talað við menn sem gera við frárennslislagnir, en orðalagið í fyrirsögninni er ekki haft eftir þeim. Venjuleg íslenska væri að segja: Húða í stað þess að brjóta og bramla. Fyrirsögnin, sem varð reyndar til þess að ég las fréttina, er einkenni nafnorðaveiki á nokkuð háu stigi. Þeir sem eru haldnir henni verða aldrei feigir, þeir bara hefja undirbúning andláts þegar koma stundarinnar nálgast.

 

Elsku Moggi, viltu vanda þig við fyrirsagnir.

 


Ósk um greiðsluríkt ár

Um 150 milljarðar sem falla á ríkissjóð vegna Icesave eru hálf milljón á hvern einasta Íslending. Heildarábyrgðir vegna innlána í erlend útibú íslensku bankana verða fimm sinnum hærri (700 ma. alls).

Fljótt á litið má giska á að þetta sé af sömu stærðargráðu og verðmæti bílaflota Íslendinga.

Bankarnir óska hverjum einasta Íslendingi greiðsluríks árs.

 


mbl.is Togast á um Icesave-kjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleysingafangi

Þetta heita afleysingar:

Mótmælandinn hafi hafið afplánun vararefsingar vegna tveggja sektardóma í ágústmánuði 2007 eins og  áður hafi komið fram. Vegna plássleysis í fangelsum ríkisins hafi hins vegar þurft að vísa honum frá eftir að hafa afplánað vararefsingu annars dómsins og þá gert ráð fyrir að hann afplánaði hinn dóminn síðar.


mbl.is Var ekki látinn vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafningsvegur ósléttur

 Vegur 360, Grafningsvegur, liggur frá Þingvallavegi niður að Nesjavöllum og áfram niður fyrir Úlfljótsvatn, þar sem hann greinist í veg niður Grafning hjá Torfastöðum, og í veg sem liggur yfir Sogið við Ljósafoss. Báðir leggirnir eru óklæddir alveg frá Nesjavöllum og niður úr. Vegurinn var rykbundinn og heflaður í sumar og var ágætur um skeið, en nú er sú sæla liðin og vegurinn orðinn ansi öldóttur. 

IMG 3726IMG 3727

 


Um bloggið

Helgi Þórsson

Höfundur

Helgi Þórsson
Helgi Þórsson
Stærðfræðingur hjá Tryggingamiðstöðinni hf.

Nýjustu myndir

  • Himnastiginn (kvöldsól)
  • Botnssúlur og Ármannsfell
  • Langs eftir vegi 360
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband